Innlent

Víðtæk samstaða um Árósasáttmálann

Kristján Már Unnarsson skrifar
Óvenjuleg pólitísk sátt náðist á Alþingi laust fyrir hádegi þegar stjórnarflokkarnir féllust á málamiðlun sjálfstæðis- og framsóknarmanna við innleiðingu Árósasáttmálans á Íslandi um aðgang almennings að upplýsingum og ákvörðunum í umhverfis- og auðlindamálum.

Lengi hefur verið tekist á um lagafrumvarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra en það gerði meðal annars ráð mjög víðtækri heimild alls almennings, og í raun allra jarðarbúa, til að leggja fram kærur til úrskurðarnefndar hér á landi í umhverfis og auðlindamálum, og það án þess að þurfa að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Gagnrýnendur töldu að þarna yrði á opnað á möguleika fyrir útlendinga til að gera kæruáhlaup á íslenska stjórnsýslu til þess eins að tefja uppbyggingu og framkvæmdir. Sjálfstæðis- og framsóknarmenn lögðu til þá málamiðlun að kærurétturinn yrði þrengdur og aðeins bundinn við þá sem ættu lögvarða hagsmuni en einnig fengju umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem eiga varnarþing á Íslandi, með 30 félagsmenn eða fleiri, rétt á að kæra ákvarðanir.

Þau óvenjulegu tíðindi gerðust á Alþingi nú laust fyrir hádegi að stjórnarflokkarnir, bæði Samfylkingin og Vinstri grænir, féllust á breytinguna. Fjórir þingmenn Hreyfingarinnar voru á móti en 49 þingmenn hinna flokkanna samþykktu breytinguna. Samkomulagið þýðir að Árósasáttmálinn verður innleiddur í íslensk lög í víðtækri sátt, en þriðja umræða og lokaafgreiðsla eru þó eftir á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×