Erlent

Tony Blair er ekki boðið

Óli Tynes skrifar
Tony Blair; úti í kuldanum.
Tony Blair; úti í kuldanum.
Tony Blair er ekki boðinn í brúðkaup þeirra Vilhjálms og Kate á föstudaginn. Raunar ekki heldur Gordon Brown og frú. Hinsvegar er Margrét Thatcher sem einnig er fyrrverandi forsætisráðherra boðin. Menn velta fyrir sér hversvegna Brown er ekki boðið, en þykjast vita hversvegna Blair og Cherie hljóta ekki náð fyrir augum Elísabetar drottningar. Það er nefnilega hún sem endanlega ræður gestalistanum.

 

Ónáð Blairs er sögð koma til af því að hann segir í ævisögu sinni að það hafi verið hann sem loks kom vitinu fyrir drottninguna þegar Díana prinsessa lést. Hann hafi sannfært hana um að viðbrögð hennar við láti prinsessunnar væru ekki nógu áhrifamikil. Þjóðin vildi heyra eitthvað tilfinningaríkara um Prinsessu fólksins.

 

Drottningin sendi loks frá sér mjög hlýlega yfirlýsingu um Díönu. Það getur vel verið að Blair hafi átt þar hlut að máli. En hvort sem það hefur eitthvað með skort á boðskortum að gera eða ekki er nokkuð víst að drottningin hefur kunnað honum litlar þakkir fyrir að segja frá því opinberlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×