Innlent

Ögmundur segist ekki hafa verið í hættu

SB skrifar
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að hann og fjölskylda sín hafi ekki verið í hættu þegar ráðist var að húsi hans aðfaranótt laugardags og rúður brotnar. Glerbrotum rigndi yfir ráðherrann sem sat í stofunni ásamt eiginkonu sinni.

Tvær rúður voru brotnar á heimili Ögmundar og var fjölmennt lið lögreglu kallað út til að tryggja öryggi ráðherrans. Samkvæmt heimildum fréttastofu ríkti einskonar umsátursástand við heimili ráðherrans þessa nótt.

Ögmundur hafði þetta um árásina að segja nú snemma í morgun þegar hann mætti í viðtal til Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni.

„Ég er ekki kominn í þetta viðtal til að ræða þetta mál," sagði Ögmundur þegar hann var spurður að því hvað hefði átt sér stað. . Hann segir málinu hafa lokið blessunarlega og allir séu við góða heilsu.

Síðustu vikur hefur Ögmundur verið í sviðsljósinu vegna umdeildra mála. Hann skar upp herör gegn Hells Angels og glæpagengjum á Íslandi og boðaði forvirkar rannsóknaraðgerðir. Og nú fyrir helgi reyndi hælisleitandi að kveikja í sér í húsi Rauða Krossins en málefni pólitískra flóttamanna eru á forræði Innanríkisráðuneytisins.

Spurður hvort árásin á föstudag tengdist þessum málum svaraði Ögmundur: „Mér er ekki kunnugt um það hvaða tengsl kunna að vera þar á milli."

Erfitt hefur reynst að fá upplýsingar um málið frá lögreglunni en aðgerðirnar á aðfaranótt föstudags voru á forræði Ríkislögreglustjóra. Málið er þó litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni og hefur eftirlit með heimili hans verið hert. Enginn hefur verið handtekinn vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×