Innlent

Hælisleitandinn kominn í gæsluvarðhald

SB skrifar
Hælisleitandinn var handtekinn í gær. Mynd/ Anton.
Hælisleitandinn var handtekinn í gær. Mynd/ Anton.
Hælisleitandinn Mehdi Kavyan Pour hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna öryggisvistun en hann reyndi að kveikja í sér í húsi Rauða krossins í gær. Lögfræðingur mannsins segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi við málstað hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurðinn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var Mehdi úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á viðeigandi stofnun. Lögfræðingur hans, Helga Vala Helgadóttir, segir umbjóðanda sinn nú íhuga hvort hann kæri úrskurðinn en Mehdi er í gæsluvarðhaldi eins og stendur.

Mehdi reyndi í gær að kveikja í sér í húsi Rauða Krossins en hann hafði verið boðaður á fund hjá Útlendingastofnun í gærmorgun. Mehdi hefur í sjö ár barist fyrir pólitísku hæli og dvalarleyfi hér á landi en mikill dráttur hefur verið á máli hans. Kristín völundardóttir, forstjóri útlendingastofnunar, sagði í fréttum rúv í gær ekki til fyrirmyndar hve langan tíma það hefði tekið að afgreiða mál Mehdi. Það væri ljóst að málið hefði dregist í of langan tíma hjá stofnunni.

Mehdi, sem er frá Íran, hafði þann starfa í heimalandinu að hlera síma. Þegar trúnaðarupplýsingar hurfu af skrifstofu hans og tveir samstarfsmenn létust flúði hann land en kona hans og dóttir urðu eftir í Teheran.

Abu Mogli, vinur Mehdi, segir að þegar Mehdi hafi ekki getað farið frá Íslandi til að hitta dóttur sína á sex ára afmæli hennar fyrir skömmu hafi eitthvað brostið innra með honum og lífsviljinn horfið. Hann vill koma því á framfæri að Mehdi hafi ekki haft í hótunum við starfsfólk Rauða Krossins eða ráðist inn í húsið. Hann hafi ekki haft neinar kröfur uppi heldur hafi örvæntingin rekið hann til þessara aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×