Innlent

Samkomulag um fimmtu endurskoðun

Samkomulag hefur náðst um fimmtu endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sendinefnd sjóðsins hefur verið hér á landi síðustu daga og í dag tilkynnti Julie Kozack, sem er í forsvari fyrir sendinefndina, að samkomulag sé í höfn. Það er þó háð samþykki framkvæmdastjórnar AGS en búist er við því að stjórnin taki málið fyrir í byrjun næsta mánaðar.

„Efnahagsbatinn er að ná fótfestu," sagði Kozack á blaðamannafundi í dag og benti á að búist sé við að hagvöxtur nái 2¼ prósentum þetta árið.

Þá sagði hún að skuldir ríkisins fari lækkandi en að óvissa um áhrif Icesave-málsins á skuldirnar sé nú meiri en áður í ljósi þess að ákveðið hafi verið að fara með málið fyrir dómstóla. „Hvernig sem það fer er þó búist við að eignir Landsbankans dugi fyrir stórum hluta Icesave-innstæðanna," segir Kozack og dregur það úr áhættu ríkisins að hennar mati.

Þá sagði hún að áætlun um afnám gjaldeyrishafta sé hæfilega varfærin að mati AGS.

„Norrænu þjóðirnar hafa ítrekað loforð sín um að tvíhliða lán standi Íslendingum til boða," sagði Julie Kozack að lokum. Hún býst við því að stjórn AGS taki málið fyrir snemma í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×