Íslenski boltinn

Jóhann Helgason: Menn stressaðir á boltann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhann Helgason var besti leikmaður Grindavíkur í 2-1 tapi gegn Stjörnunni í kvöld. Þrátt fyrir að hafa verið með vindinn í bakið allan síðari hálfleikinn í leit að marki tókst Grindvíkingum ekki að skapa sér nógu góð færi.

„Nei, við náðum ekki að spila boltanum nógu vel og spila okkur í gegn. Við vorum bara að reyna stungusendingar en það var ekki að skapa okkur neitt."

Töluverður vindur setti svip sinn á leikinn auk þess sem hann fór fram á hinu umtalaða gervigasi í Garðabænum.

„Já auðvitað voru aðstæður erfiðar en það er engin afsökun. Þetta var eflaust ekki skemmtilegur leikur á að horfa og aðstæður höfðu örugglega mikið að segja um það."

Grindvíkingum gekk illa að halda boltanum innan liðsins í leiknum.

„Menn virðast vera svolítið stressaðir á boltann og vita ekki alveg hvað þeir eiga að gera við hann. Ég skil ekki af hverju það er því við höfum fulla getu til þess að halda boltanum. Við erum þannig lið og með þannig leikmenn. Við verðum að fá meira sjálfstraust til að gera það."

Jóhann segir fúlt að fara inn í hléið með tap á bakinu.

„Já, að sjálfsögðu. Þetta var í sjálfu sér mjög mikilvægur leikur. Þessi leikur hefði getað híft okkur upp í töflunni. Alltaf leiðinlegt að fara inn í langt frí með tap á bakinu."

Það var kalt í veðri í Garðabænum í kvöld og átti fréttamaður afar erfitt með að halda upptökuvélinni stöðugri sökum kuldahrolls. Af þeim sökum er sérstaklega sjóveiku fólki ráðlagt að láta sér nægja að hlusta á viðtalið við Jóhann.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Fyrsti sigur Stjörnunnar í Garðabæ í sumar

Stjörnumenn fögnuðu fyrsta heimasigri sínum í sumar þegar þeir unnu 2-1 sigur á Grindavík í 7. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Stjarnan er þar með komið með 11 stig en Stjörnumenn fóru upp í fjórða sætið með því að krækja í þessi þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×