Innlent

Meiddist við björgunarafrek og fær engar bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Sjóvá-Almennar tryggingar og Norðurál Grundartanga í skaðabótamáli sem starfsmaður Norðuráls höfðaði gegn þeim.

Maðurinn vildi fá skaðabótaskyldu Norðuráls viðurkennda en hann hlaut bakmeiðsl þegar hann, ásamt vinnufélaga sínum, vann ótrúlegt björgunarafrek í september árið 2005.

Mennirnir voru þá við vinnu í kerfóðrunardeild Norðuráls þegar bakskautsklemma féll ofan á fætur konu sem var þar að störfum.

Maðurinn og samstarfsfélagi hans hlupu þá til samstarfskonunnar og lyftu klemmunni þannig að hún gat skriðið undan.

Í dómnum segir að bakskautsklemman hafi vegið 620 kíló samkvæmt upplýsingum frá Norðuráli.

Norðurál mótmælir því að fyrirtækið sé skaðabótaskylt. Orðrétt segir í málsvörn þess:

„Stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að lyfta klemmunni með handafli og breyti engu um skaðabótaábyrgð aðalstefnda að stefnandi var að aðstoða samstarfskonu sína við að komast undan klemmunni. Stefnandi hafi ekki fengið nein fyrirmæli um að standa að málum með þeim hætti sem hann gerði og sé því mótmælt að verkstjóri hafi samþykkt aðferðina."

Þá vill Norðurál meina að ráðrúm hefði verið til þess að beita tiltækum tækjum til þess að lyfta klemmunni af samstarfskonu mannanna.

Á þessi rök féllst dómari héraðsdóms auk þess sem segir í niðurstöðu dómsins að maðurinn hafi hlotið meiðslin eftir að hann bjargaði samstarfskonunni, samkvæmt eigin ákvörðun, og því falli atvikið ekki undir lagalegar skilgreiningar um að þarna hafi slys átt sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×