Innlent

Ný rannsókn sýnir marktæk áhrif farsímanotkunar á heila

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Í fyrsta sinn hefur verið sýnt fram á með nýrri vísindalegri rannsókn að farsímanotkun veldur marktækum og mælanlegum áhrifum á efnaskiptin í heilaberkinum. En í nokkur ár hafa verið vangaveltur um hættu á myndun æxlis í heila vegna farsímanotkunar.

Um er að ræða nýja rannsókn í JAMA, sem stendur fyrir The Journal of the American Medical Association, tímariti amerísku læknasamtakanna en um er að ræða virt fagtímarit í læknisfræði.

Rannsóknin fjallar um áhrif 50 mínútna farsímanotkunar á heilabörkinn, nánar tiltekið sykurefnaskiptin sem eru aukin á þeim stað þar sem rafgeislunin er mest undir símanum.

Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir, segir að í greininni sé í fyrsta sinn sýnt með vísindalegri rannsókn að það séu marktæk mælanleg áhrif á efnaskiptin í heilaberkinum af völdum farsíma en í nokkur ár hafa verið vangaveltur um hættu á myndun æxlis í heila, tengt mikilli farsímanotkun. „Þarna mældust breytingar á efnaskiptum í heilaberki eftir aðeins klukkutímanotkun. Það auðvitað vekur upp spurningar um frekari áhrif og langtímanotkun. Sérstaklega barna og unglinga sem nota farsíma mjög mikið. Rannsakendurnir mælast til þess að foreldrar sjái til þess að börn og unglingar noti frekar handfrjálsan búnað," segir Vilhjálmur Ari. Hann segir að fullorðnir sem noti farsíma mikið þurfi líka að hafa þetta í huga. „Þeir sem tala mikið í farsíma þeir ættu að nota handfrjálsan búnað. Þetta eru fyrstu vísbendingar sem að benda til þess að farsímar geti haft áhrif."

Anderson Cooper, fréttamaður hjá CNN, var nýlega með fréttaskýringu um sama mál á stöð sinni þar sem það var niðurstaða lækna að æskilegt væri að nota handfrjálsan búnað á öllum stundum dagsins, ekki aðeins úti í umferðinni.

Athyglisvert er að í nýjum tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálstofnunarinnar, WHO er mælst til þess að farsíma sé haldið a.m.k tveimur sentímetrum frá eyra ef ekki er stuðst við handfrjálsan. Þá eru framleiðendur orðnir meðvitaðir því í nýjustu bandarísku leiðbeiningunum frá framleiðandanum Research in Motion sem framleiðir Blackberry er mælst til þess sama. Eins og sést er þetta frekar einkennilegt og líklegt að maður heyri líka illa í viðmælandanum og þá er líklega betra að nota handfrjálsan. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×