Erlent

Enn slegist á götum Lundúna

Óeirðirnar í London héldu áfram í nótt aðra nóttina í röð. Lögregla handtók rúmlega hundrað óeirðaseggi í nótt en óróinn byrjaði fyrir helgi í Tottenham hverfinu þegar vopnaðir lögreglumenn skutu Mark Duggan, 29 ára gamlan íbúa þess til bana. Rannsókn á atvikinu er þegar hafin en lögreglumennirnir fullyrða að maðurinn hafi verið vopnaður og að hann hafi skotið á þá af fyrra bragði.

Á aðfararnótt sunnudagsins fóru friðsamleg mótmæli vegna málsins út um þúfur og var kveikt í verslunum og bifreiðum í hverfinu. Lætin héldu síðan áfram í nótt og hafa 35 lögreglumenn slasast í átökunum. Mótmælin hafa einnig breiðst út til annarra hverfa í borginni á borð við Enfield og Brixton, þar sem um 200 ungmenni slógust við lögreglumenn á aðalgötunni í nótt.

Hátt í hundrað ungmenni hafa verið handtekin fyrir innbrot og þjófnaði en farsímaverslanir og íþróttavörubúðir eru vinsæl skotmörk hjá óeirðaseggjunum. Enginn hefur látist í átökunum enn sem komið er en þrír lögreglumenn slösuðust nokkuð í nótt þegar bifreið var ekið á þá á fullri ferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×