Erlent

Mikil löggæsla og rigning róaði lýðinn

Gríðarlegur fjöldi lögreglumanna og mikil rigning á sumum svæðum komu í veg fyrir að England logaði í óeirðum fimmtu nóttina í röð.

Ástandið var með skásta móti í London og fleiri borgum Bretlands þar sem óöld hefur ríkt síðustu fimm daga. Mikil áhersla hefur verið lögð á aukinn sýnileika lögreglunnar og að koma lögum yfir þá sem harðast gengu fram í óeirðunum til saka. Dómstólar hafa verið opnir allan sólarhringinn til þess að hægt sé að leiða sakborninga fyrir dómara og aðeins í London hafa 888 verið handteknir.

Einu lætin í höfuðborginni í nótt urðu þau að í brínu sló á milli lögreglunnar og íbúa hverfisins Eltham sem höfðu safnast saman til þess að verja eigur sínar. Lögreglan bað þá vinsamlegast um að snúa heim á leið en mennirnir, sem voru um hundrað, tóku illa í það. Eftir tvo tíma létu þeir sér loksins segjast en lögreglan leggur mikla áherslu á að hvetja íbúa borgarinnar til þess að taka lögin ekki í sínar hendur.

Í Birmingham fór allt friðsamlega fram en þar var haldin fjölmenn minningarathöfn um mennina þrjá sem létust þegar ekið var á þá þar sem þeir reyndu að verja eigur sínar. Einn er í haldi grunaður um að hafa ekið bílnum og er hann nú í yfirheyrslum. Breska þingið kemur saman í dag til þess að ræða atburði síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×