Innlent

Auglýsir eftir skólabókum sem var stolið úr bifreið í nótt

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík Mynd úr safni
„Þeir tóku útvarpið og alla geisladiskana mína og einnig stóra leðurtösku með öllum skólabókunum mínum og glósur til margra ára,“ segir Þórdís Leiva, nemandi í Háskólanum í Reykjavík.

Brotist var inn í bílinn hennar í nótt og tóku þjófarnir meðal annars rándýrar skólabækur og dýran vasareikni. „Þetta er mikils virði fyrir mig því ég er að koma mér upp úr veikindum eftir að ég lenti í slysi í fyrra og er svona að koma mér af stað, meðal annars með því að fara í skólann nú í haust,“ segir Þórdís.

Bíllinn hennar stóð á Langholtsveginum í nótt og segir Þórdís að þjófarnir hafi þjösnast á hurðinni og komist þannig inn í bílinn. „Ef einhver í nágrenninu verður var við bækurnar í garðinum hjá sér eða í ruslatunnum má hinn sami endilega hafa samband,“ segir Þórdís sem telur að þjófarnir hafi ekki mikil not fyrir skólabækurnar.

Þeir sem gætu vitað eitthvað um málið eru beðnir um að hafa samband við Þórdísi í síma 869-6975 eða við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×