Erlent

Kim Jong Il kominn til Rússlands

Kim Jong Il
Kim Jong Il Mynd/AFP
Leiðtogi Norður Kóreu, Kim Jong-il, kom til Rússlands í dag og mun þar funda með forseta landsins, Dimitry Medvedev. Þetta er fyrsta rússlandsheimsókn kóreska leiðtogans í níu ár, og er talið að heimsóknin sýni viðleitni Norður-Kóreu til að sækja sér aukna velvild í alheimssamfélaginu, auk efnahagslegs stuðnings.

Ástæður heimsóknarinnar eru meðal annars umræður um móttöku matarhjálpar, en Norður-Kórea þjáist reglulega af matarskorti. Nýlega hafa miklar rigningar og flóð ógnað uppskeru þar í landi, og tilkynnti rússneska utanríkisráðuneytið í gær fyrirhugaða matarhjálp til Pyongyang, höfuðborgar Norður Kóreu.

Þá er einnig talið að Kim Jong Il sé að leita eftir alþjóðlegum stuðningi við son sinn, Kim Jong Un, sem gert er ráð fyrir að taki við stjórn landsins af föður sínum þegar til þess kemur, en Kim Jong Il er nú orðinn 69 ára gamall.

Kim mun eyða viku í Rússlandi, en ekki er vitað hvenær áætlað er að fundur leiðtoganna fari fram. Breska ríkisútvarpið hefur heimildir fyrir því að Medvedev muni hvetja leiðtogan til þess að halda áfram viðræðum við alþjóðasamfélagið um stefnu Norður Kóreu í kjarnorkumálum. Þá mun Kim jafnframt ræða við rússneska gasfyrirtækið Gasprom um gasleiðslu sem lögð verður í gegnum Norður Kóreu til Suður Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×