Innlent

Vilja að fjöldi ráðuneyta sé ákveðinn í lögum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá Alþingi Íslendinga. Mynd/ GVA.
Frá Alþingi Íslendinga. Mynd/ GVA.
Minnihlutinn í allsherjarnefnd leggst gegn þeirri tillögu sem kemur fram í lagafrumvarpi um stjórnarráð Íslands að forsætisráðherra ákveði hvaða ráðuneyti starfi á hverjum tíma fyrir sig í stað þess að slíkt sé ákveðið með lögum. Frumvarpið er nú til annarrar umræðu á Alþingi.

Í nefndaráliti sínu segja þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að með þessu sé verið að flytja valdið frá Alþingi til ríkisstjórnar og þá fyrst og fremst til forsætisráðherra. „Þessi breyting á sér hvorki stoð í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis né þingmannanefndarinnar, en hana er vissulega að finna í tillögum starfshóps forsætisráðherra," segja þeir í áliti sínu.

Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd, leggst gegn því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði sameinað iðnaðarráðuneytinu í einu atvinnuvegaráðuneyti. „Málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins eru mikilvægustu mál þjóðarinnar. Er þar einkum horft til gjaldeyristekna sem sjávarútvegurinn skapar fyrir þjóðarbúið og matvælaöryggis þjóðarinnar. Því er skylda löggjafans að standa vörð um ráðuneytið, einkum í ljósi þess að nú liggur fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu,“ segir Vigdís í nefndaráliti sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×