Innlent

Gerir ekki athugasemdir við ókeypis tannlækningar fyrir tekjulága

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Heimilt var að bjóða upp á tannlækningar fyrir börn tekjulágra. Mynd/ Getty.
Heimilt var að bjóða upp á tannlækningar fyrir börn tekjulágra. Mynd/ Getty.
Samkeppniseftirlitið hefur vísað frá kæru tannlæknis á hendur velferðarráðuneytinu og fleiri aðilum þar sem hann bar þeim á brýn að hafa staðið fyrir ólöglegri samkeppni með því að efna til átaks í tannlækningum fyrir börn tekjulágra.

Velferðarráðuneytið efndi í vor til tímabundins átaks í tannlækningum fyrir börn þar sem börnum tekjulágra foreldra var boðin endurgjaldslaus tannlæknaþjónusta. Sett var reglugerð um verkefnið með vísan í lög um sjúkratryggingar og lög um félagslega aðstoð. Tannlæknadeild Háskóla Íslands tók þátt í verkefninu; lagði til húsnæði og aðstöðu og sá um að ráða tannlækna og aðstoðarfólk.

Tannlæknirinn sendi erindi til Samkeppniseftirlitsins í lok maí síðastliðinn þar sem hann kærði velferðarráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingar Íslands og Tannlæknadeild Háskóla Íslands fyrir að auglýsa tannlækningar sem hann sagði skerða samkeppni, skaða rekstur hans með ólöglegri samkeppni, auk þess að kynna verkefnið ólöglega sem „ókeypis" tannlækningar.

Samkeppniseftirlitið telur að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar í málinu en tekur að öðru leyti ekki afstöðu til málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×