Innlent

Fræðilegur möguleiki að mönnunum hafi tekist að brjóta á börnum

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan sé að styðjast við eftirlitsmyndavélar, sem eru nálægt fyrirtækjum og skólum, til að reyna að finna meinta barnaníðinga sem hafa reynt að lokka börn upp í ökutæki sín á höfuðborgarsvæðinu undanfarið.

Geir var gestur í Kastljósi í kvöld. Hann segir að oftast í svona tilfellum séu upplýsingarnar sem lögreglan fær vera mjög óljósar og það skapi mikla vinnu fyrir lögreglu að fá skýrari og betri upplýsingar. „Lögreglumenn ræða oft við börnin til að þau til að lýsa því betur en þau hafa gert áður við til dæmis skólayfirvöld eða foreldra," segir hann. „Fá þau til að gera þetta myndrænt, eins og börnum er kennt að raða saman hlutum."

Mynd úr Fréttablaðinu frá því í gær. Eitt nýtt dæmi hefur komið upp síðan þá. Þau eru því orðin níu talsins síðustu misseri.mynd/fréttablaðið
Hann segir það mikilvægt fyrir lögreglu að fá bílnúmerið á bílum, manna sem reyna að lokka börn upp í bíl. „Jafnvel þótt það séu ekki nema fyrstu stafirnir," segir hann. „En fyrst og fremst á barnið að koma sér í burtu."

Hann segist vera vongóður um að mennirnir náist en fjöldi lögreglumanna rannsakar nú athæfið. Hann var spurður að því hvort það að hugsanlega hafi mönnunum tekist að brjóta á einhverjum börnum, sem ekki hafa sagt frá, segir hann: „Það er alveg fræðilegur möguleiki að þetta hafi tekist í einhverjum tilvikum."

„Við þurfum öll að taka þátt í því að vernda börnin okkar," segir hann. „Við viljum frekar fá fleiri tilkynningar en færri. Fólk á að vera óhrætt að tala við okkur - allar upplýsingar skipta máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×