Innlent

Sýknuð af fíkniefnaakstri - gaf þvagsýni án hanska

Konan var færð niður á lögreglustöð þar sem hún gaf þvagsýni.
Konan var færð niður á lögreglustöð þar sem hún gaf þvagsýni.
Kona var sakfelld fyrir rangar sakargiftir og umferðalagabrot í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Konan var hinsvegar sýknuð af ákæru um að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Brotin áttu sér öll stað á síðasta ári. Í október síðastliðnum var konan stöðvuð af lögreglu grunuð um að stjórna farartæki undir áhrifum fíkniefna. Hún var færð á lögreglustöð og var henni afhent innsiglað, einnota prufuglas sem hún svo lét þvagið renna í. Niðurstöðurnar voru þær að örlítið magn kókaíns mældist í þvagprufunni. Hinsvegar fundust engar leifar fíkniefnisins við blóðprufu.

Konan játaði fyrir rétti að hafa handleikið kókaín stuttu áður en hún var handtekin. Samkvæmt dómsorði er ekki að sjá af gögnum málsins að hún hafi verið látin setja upp hanska eða þvo sér um hendurnar áður en hún gaf þvagsýni. Eru því leiddar líkur að því að kókaínið, sem mældist í þvaginu, hafi í raun verið af höndum konunnar. Var hún því sýknuð af þessum ákærulið.

Konan er langt gengin með barn og er hætt allri neyslu. Því þótti dómara réttast að dæma konuna í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi. Refsing fellur niður haldi hún skilorð í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×