Innlent

Þrír hafa greinst með alnæmi

Af þeim sautján sem greinst hafa með HIV sýkingar á árinu eru fjórir gagnkynhneigðir einstaklingar komir yfir fimmtugt. Fólkið, sem ekki tilheyrir neinum áhættuhópi, hefur líklega verið með sjúkdóminn í nokkur tíma því þrír eru með alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins.

Læknar hafa þungar áhyggjur af fjölgun HIV sýkinga hér á landi en sautján hafa greinst það sem af er árinu. Af þeim eru þrettán sprautufíklar, langflestir á aldrinum þrjátíu til fimmtíu ára. Það sem vekur einnig athygli lækna er að í hópnum eru fjórir gagnkynhneigðir Íslendingar komnir nokkuð yfir fimmtugt.

„Þetta er fólk sem komið er yfir miðjan aldur og er að greinast með langt gengin sjúkdóm, alnæmi sem er lokastig hans. Sem þýðir að það hefur verið að ganga lengi með hann án þess að vita það," segir Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir.

Hann segir fólkið hafa leitað til lækna eftir að hafa fengið alvarleg sjúkdómseinkenni og oft hafi tekið tíma að átta sig á hvað raunverulega hrjáði það.

Haldið þið að það séu þá jafnvel fleiri sem gætu verið með þetta. Fólk sem er ekki að greinast af því það tilheyrir ekki áhættuhópum?

„Já, þetta gefur auðvitað vísbendingar um að það geti verið. Við höfum nú lengi talið að það sé ekki mikið af fólki þarna úti í samfélaginu sem gengur með sjúkdóminn."

Haraldur segir það ekki hafa gerst áður að svo margir á þessum aldri hafi greinst. Hann hvetur lækna til að vera vakandi fyrir HIV-sýkingum.

„Þetta er svo sannarlega ástæða til að hafa varann á og einmitt að huga að því að þessi sjúkdómur geti verið hjá inna gæsalappa venjulegu fólki sem áttar sig ekki á þessu. Og þetta gæti skýrst sjúkdómseinkennin," segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×