Innlent

Struku af meðferðarheimili og brutust inn í sumarbústaði

Geldingalækur
Geldingalækur Mynd/stöð2
Þrír ungir drengir struku af meðferðarheimilinu Geldingalæk um miðjan síðasta mánuð og brutust inn í nokkur sumarhús, höfðust þar við í sólarhring og ollu gífurlegum skemmdum. Sumarhúsaeigendur furða sig á skipulagi starfsemi heimilisins og afskiptaleysi lögreglu.

Drengirnir brutust inn í þrjú nærliggjandi sumarhús í Ketlubyggð í leit að áfengi og vímuefnum. Þeim varð heldur betur að ósk sinni þar sem afmælisveisla var nýafstaðin í einu húsinu og nóg af veigum að taka. Talið er að þremenningarnir hafi dvalið í sumarhúsunum í um sólarhring, en á þeim unnu þeir gífurlegar skemmdir og er tjónið talið nema hundruðum þúsunda.

Sumarhúsaeigendum á svæðinu var mjög brugðið, en flestir þeirra eru komnir á eftri ár. Forstöðumaður meðferðarheimilisins átti fund með þeim eftir atvikið og staðfesti að vistmennirnir hefðu verið að verki. Þar sagði hann starfsemina jafnframt vera í endurskoðun.

Að sögn sumarhúsareiganda, sem hafði samband við fréttastofu, kom það einnig fram á að starfsmenn vistheimilisins hefðu ekki mátt veita unglingunum eftirför og þegar kallað var eftir aðstoð lögreglu, hafði hún ekki haft tök á að sinna útkallinu vegna fáliðunar.

Þessu lístu sumarhúsaeigendur furðu sinni á, sem og þeim vandræðagangi sem virðist ríkja hjá á stofnuninni, en í síðustu viku leitaði starfsmaður Geldingalæks sér aðhlynningar á spítala eftir að unglingur á heimilinu laumaði eitruðum vökva í glas hjá honum.

Forstöðumaður meðferðarheimilisins staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að atvikin hefðu átt sér stað og að fundað hefði verið um málin að undanförnu. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.

Þremenningarnir eiga von á ákæru samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×