Erlent

MI6 og CIA rændu andófsmönnum og fluttu til Gaddafís

Mynd/AP
Samningaviðræður uppreisnarmanna í Líbíu um að fylgjendur Gaddafis í borginni Bani Walid fóru út um þúfur í gærkvöldi. Breskir og bandarískir leyniþjónustumenn eru nú sakaðir um að hafa aðstoðað Gaddafí í baráttunni við andófsöfl í landinu áður en til uppreisnarinnar kom.

Vonast hafði verið til þess að uppreisnarmenn næðu borginni á sitt vald án blóðsúthellinga en nú virðist lítil von til þess.  BBC hefur eftir uppreisnarmönnum að íbúar borgarinnar þori ekki að hreyfa sig af ótta við að stuðningsmenn Gaddafis myndu skjóta þá í hefndarskyni eða nota þá sem mannlega skyldi í skotbardögum.

Í Bretlandi hefur sérstakri rannsóknarnefnd verið falið að kanna ásakanir um að breska leyniþjónustan MI6 og sú bandaríska, CIA, hafi aðstoðað Gaddafí og menn hans við að ná til andófsmanna sem gagnrýnt hafi stjórnvöld í Líbíu löngu áður en til uppreisnarinnar kom. Breska blaðið Guardian greinir frá því í dag að skjöl sem fundist hafi í Trípólí eftir að borgin féll í hendur uppreisnarmanna staðfesti þetta.

Yfirmaður hers uppreisnarmanna, Abdulhakim Belhaj, er einn þessara manna en hann staðhæfir að breskir og Bandarískir leyniþjónustumenn hafi rænt sér í Bankok í Tælandi árið 2004 og flutt sig til Líbíu. Þar hafi hann verið pyntaður af mönnum Gaddafís og verið yfirheyrður af leyniþjónustumönnunum.

Hann segir að með þessu hafi vestrænu leyniþjónustunrnar viljað ná í upplýsingar á meðan stríðið gegn hryðjuverkum stóð sem hæst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×