Innlent

Frestun reglugerðar blaut tuska í andlit neytenda

Lífrænt. Myndin er úr safni.
Lífrænt. Myndin er úr safni.
Samtök lífrænna neytenda og Slow Food Reykjavík gagnrýna Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, harðlega fyrir frestun gildistöku á reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs sem átti að taka gildi 1. september. Ráðherra hefur frestað gildistökunni til 1. janúar 2012.

Í yfirlýsingu frá samtökunum, sem finna má á heimasíðu þeirra, kemur fram hörð gagnrýni á ráðuneytið. Fullyrt er á heimasíðunni að frestunin sé tilkomin af tveimur ástæðum, eða eins og segir á heimasíðunni:

„Engin skýring hefur verið gefin en við höfum traustar heimildir fyrir því að einkum tvennt komi til:

Innflytjendur hafi mótmælt gildistöku reglugerðarinnar, sér í lagi þeir aðilar sem flytja inn matvæli frá Bandaríkjunum.

Reglugerðir ESB nr. 1829 og 1830/2003 séu loks á leið inn í EES samninginn, sem þýði að orðalagið muni breytast lítillega í íslensku gerðinni og það gefi tilefni til að fresta gildistökunni."

Forsvarsmenn samtakanna saka ráðuneytið um að verja hagsmuni örfárra fyrirtækja, sem flytja inn matvæli frá landi þar sem neytendavernd er fórnað fyrir hagsmuni fjölþjóðafyrirtækja, og hunsa hagsmuni íslenskra neytenda, „sem hafa þurft að biða í átta ár eftir að innleidd sé reglugerð sem gefi þeim tækifæri til að hafa val og taka upplýsta ákvörðun þegar þeir kaupa matvæli."

Svo segir í tilkynningunni: „Þetta er blaut tuska í andlit neytenda og við förum fram á að fá ítarlegan rökstuðning ráðuneytisins fyrir frestun gerðarinnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×