Erlent

Hillary hrífur Cheney

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Cheney var varaforseti í stjórnartíð Bush.
Cheney var varaforseti í stjórnartíð Bush. Mynd/ afp.
Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, lofar framgöngu Hillary Clinton í embætti utanríkisráðherra í Bandaríkjanna í hástert. Hann segir að áhugavert yrði að vita hvernig forseti hún yrði.

Eins og margir vita varð Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, eftir að repúblikanar unnu forsetakosningar í Bandaríkjunum árið 2000 og George Bush yngri varð forseti. Hillary Clinton er hins vegar úr röðum andstæðinganna í Demókrataflokknum og því kemur það kannski á óvat að Cheney skuli hrósa Clinton með þessum hætti.

Í viðtali á Fox fréttastöðinni í gær var Cheney spurður að því hvort hann teldi að Demókrataflokkurinn stæði betur að vígi með Clinton eða Barack Obama, núverandi forseta Bandaríkjanna, sem forsetaframbjóðanda þegar kosið verður árið 2012.

Cheney svaraði því til að það væri ef til vill ágætt ef þau myndu keppa um forsetaútnefninguna. Hann ætlaði hins vegar ekki að hvetja Hillary Clinton áfram því það gæti orðið hennar banabiti.

Clinton gaf kost á sér sem forsetaefni Demókrata fyrir kosningarnar 2008 en laut í lægra haldi fyrir Obama, sem gerði hana síðan að utanríkisráðherra. Reuters fréttastofan segir að Clinton hafi ekki sýnt neinn áhuga á því að skora Obama á hólm í næstu kosningum um útnefningu forsetaefnisins fyrir kosningarnar árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×