Erlent

Flóttakýrin Yvonne loksins fönguð

Loksins tókst að koma böndum á beljuna sem fangað hefur hug og hjörtu Þjóðverja í allt sumar.
Loksins tókst að koma böndum á beljuna sem fangað hefur hug og hjörtu Þjóðverja í allt sumar. Mynd/AFP
Frægasta kýr Bæjaralands, flóttakýrin Yvonne, er kominn undir manna hendur eftir að hafa verið á æsilegum flótta í allt sumar. Yvonne forðaði sér af bóndabænum daginn áður en hún átti að fara í sláturhúsið og hefur ekki sést síðan í maí. Síðan þá hefur hún orðið að nokkurskonar þjóðhetju í Þýskalandi og um hana hafa spunnist sögur og sungnir söngvar. Á tímabili var vinsælasta lag Þýskalands baráttusöngur tileinkaður henni.

Flóttinn vakti ekki mikla athygli til að byrja með en eftir að lögreglumenn voru hætt komnir þegar þeir óku næstum á beljuna, var ákveðið að gefa út veiðileyfi á hana. Það tóku dýraverndunarsamtök óstinnt upp og eftir skamma stund var búið að tryggja henni áframhaldandi líf á friðsælum bóndabæ í nágrenninu. Yvonne lét hinsvegar ekki segjast og ekkert gekk að ná henni á ný í hús.

Ýmislegt var reynt, baul úr kálfi hennar var spilað í skóginum, besta vinkona hennar var sett út í haga til þess að lokka hana og þegar það gekk ekki var nautinu Ernst sleppt lausu til að reyna að hafa upp á henni. Ekkert gekk og töldu sérfræðingar að Yvonne væri farin að haga sér eins og dádýr, hún lét lítið fyrir sér fara á daginn og ferðaðist um á nóttinni. Málið vakti heimsathygli og þýska blaðið Bild bauð tíu þúsund evrur hverjum þeim sem gæti fundið Yvonne.

Það hefur nú tekist. Fyrrverandi forstjóri dýragarðsins í Munchen skaut Yvonne með deyfiörvum í gær. Kýrin mun nú væntanlega fá að njóta lífsins í kyrfilega afgirtum haga til dauðadags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×