Erlent

Páfinn kærður fyrir brot gegn mannkyni

Benedict XVI
Benedict XVI Mynd/AFP
Fórnarlömb kynferðisbrota kaþólsku kirkjunnar lögðu í dag inn kæru fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag. Með því kærðu þeir sjálfan páfann og þrjá aðra hátt setta embættismenn í Vatíkaninu fyrir „glæpi gegn mannkyni".

Samtök sem titla sig SNAP (Survivors Network of those Abused by Priests) standa fyrir kærunni. Með henni vilja þau að Benedict XVI páfi og fleiri séu fundnir ábyrgir fyrir „kerfisbundinni þöggun á nauðgunarmálum og kynferðisbrotum gegn börnum í heiminum".

Kæran er 84 bls. að lengd og í henni eru sex ofbeldismál reifuð ítarlega. Brotin áttu sér stað í Bandaríkjunum og Kongó.

Lögfræðingar og aðrir kunnugir menn segja að kæran muni líklega ekki fá mikla umfjöllun hjá dómstólnum. Ekki sé um kerfisbundnar árásir á mannréttindi að ræða, en til að mál eigi undir lögsögu dómstólsins verður það að eiga við. Kæran væri því helst til þess fallin að vekja alþjóðlega umræðu.

Í gegn um tíðina hefur oft verið reynt að fá páfann dæmdan ábyrgan fyrir kynferðisofbeldi í Bandaríkjunum. Það hefur ekki tekist, enda nýtur páfinn friðhelgi fyrir saksókn sem æðsti maður ríkis.

Embættismenn í Vatikaninu sögðu kæruna í dag vera „dæmigerða and-kaþólska tilraun til að sverta mynd kirkjunnar".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×