Erlent

Telja að Butch Cassidy hafi komist lifandi frá Bólivíu

Fornbókasali og rithöfundur í Bandaríkjunum segjast geta sannað að hinn þekkti útlagi Butch Cassidy hafi lifað af fyrirsátina í Bólívíu og komist aftur heim til Bandaríkjanna.

Tvíeykið Butch Cassidy and The Sundance Kid voru einhverjir frægustu útlagar Bandaríkjanna í kringum aldamótin árið 1900. Um þá var gerð þekkt kvikmynd með þeim Robert Redford og Paul Newman í aðalhlutverkum. Talið er að útlagarnir hafi fallið í fyrirsát bólivíska hersins í smáþorpi í Bólivíu árið 1908.

Fornbókasalinn Brent Ashworth og rithöfundurinn Larry Pointer segja að þeir hafi fundið áður óþekkt handrit að bók sem sanni að Cassidy hafi lifað fyrirsátina af og komist aftur til Bandaríkjanna. Þar hafi hann sest að í Washington og starfað sem vélasölumaður þar til hann lést árið 1937.

Í Washington hafi Cassidy tekið upp nafnið William Philips sem er skráð fyrir hinu óþekkta handriti. Í því sé að finna ýmis atriði sem aðeins Cassidy vissi um eins og að dómari hafi eitt sinn heimsótt hann í fangelsi og boðið honum náðun.  Einnig að Cassidy hafi ásamt gengi sínu eitt sinn haldið til á óþekktum stað í Big Horn fjöllunum í Montana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×