Innlent

Enn tekist á um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu

Ríkisstjórninni tókst ekki að afgreiða frumvörp til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu í dag. Málið hefur tafist í marga mánuði vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna um hversu langt eigi að ganga í breytingum á kvótakerfinu.

Deilan snýst meðal annars um svokallaðan leigupott sem á tryggja að kvótalausar útgerðir geti leigt kvóta beint af ríkinu. Þannig á að líka að opna fyrir nýliðun í greininni.

Samfylkingin leggur áherslu á að leigupotturinn ásamt strandveiði- og byggðakvóta verði fyrst í stað tíu prósent af heildarkvóta en fari upp í allt að tuttugu prósent eftir fimmtán ár. Vinstri grænir hafa hins vegar talað um sjö til fimmtán prósent í þessu samhengi. Þá ríkir ekki sátt milli stjórnarflokkanna um hvernig haga eigi gjaldtöku af kvótaleigu.

Málið hefur tafist í marga í mánuði vegna þessa en Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsti því yfir í byrjun árs að frumvarpið yrði tilbúið í febrúar. Nú stendur til að klára málið í næstu viku en málið fyrst kynnt hagsmunaaðilum.

„Það er engin töf," segir Jón Bjarnason. Það er gríðarlega mikil vinna sem tengist þessu. Þetta eru tvö frumvörp sem þarna eru á ferðinni, annars vegar frumvarp sem tekur á aðgerðum sem gætu komið til framkvæmda nú þegar á þessu ári og í byrjun næsta fiskveiðiárs sem hefst 1. september og hins vegar frumvarp sem tekur á grundvallarbreytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og framkvæmd þess til lengri tíma."

Ráðherra samfylkingarinnar vildu hins vegar lítið tjá sig um málið að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×