Innlent

Þór Saari: Óraunhæfir kjarasamningar

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Þingmaður Hreyfingarinnar segir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna nýrra kjarasamninga vera óraunhæfa og ríkið geti ekki staðið undir henni. Hann telur að launþegar muni fella samningana í atkvæðagreiðslu og sækja sér meiri launahækkanir.

Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar gagnrýnir harðlega yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna nýrra kjarasamninga. Hann segir yfirlýsinguna óljósa og erfitt sé að sjá í hvernig eigi að ráðstafa 60 milljarða fjárfestingu sem lofað er sem og hvaðan peningarnir eigi að koma.

„Ríkissjóður á ekki fyrir þessum útgjöldum og þeir munu þá koma eingöngu úr frekari skattahækkunum eða niðurskurði annars staðar. Þannig þetta hljómar eins og einhver þykjustu dúsa upp í aðila vinnumarkaðarins til að skrifa undir, en ég fæ ekki séð að ríkið muni bara geta staðið undir það sem það lofaði," segir hann.

Þá segir Þór kjarasamningana byggja á verðbólguspám Seðlabankans og Alþýðusambandsins sem hafi aldrei staðist hingað til.

„Ég er svolítið hræddur um að launafólk komi með skarðan hlut frá þessum samningum, þeir verði til málamynda til að skapa frið á vinnumarkaði sem að mun ekki halda," segir Þór.

Hann segir launahækkanir í samningunum vera of lágar. Hann telur að samningarnir verði felldir í atkvæðagreiðslu.

„Ég held að launafólk þurfi að snúa betur bökum saman og sækja sér ríflegri launahækkanir og vera öflugra í andstöðu sinni við þá aðför sem búið er að fara gegn almenningi hérna undanfarin þrjú ár. Samtök launafólks eiga að gæta hagsmuna þeirra og ég tel að þau hafi ekki staðið sig nægilega vel í þessum kjarasamningum og tel því að launafólk eigi að rísa upp og fella þessa samninga," segir Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×