Innlent

Hafa ekkert greitt í 22 ár

Eigendur flugskýla við Reykjavíkurflugvöll hafa ekki þurft að greiða gatnagerðargjöld frá 1989. Í staðinn áttu þeir að greiða fyrir kostnað við lagfæringu á gömlum lögnum. Fréttablaðið/GVA
Eigendur flugskýla við Reykjavíkurflugvöll hafa ekki þurft að greiða gatnagerðargjöld frá 1989. Í staðinn áttu þeir að greiða fyrir kostnað við lagfæringu á gömlum lögnum. Fréttablaðið/GVA
Eigendur flugskýla við Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri hafa ekki þurft að greiða gatnagerðargjöld síðan árið 1989. Samkvæmt samþykkt frá Borgarráði Reykjavíkur frá 1. ágúst það ár skulu eigendur hins vegar þess í stað greiða kostnað við lagfæringar eldri lagna og eftir atvikum lagningu nýrra holræsa og brunna.

Skólpblandað vatn tók að flæða upp úr brunni á svæðinu við flugvöllinn í vikunni. Fráveitulögn fyrir framan flugskýli 23 nær ekki að anna fráveituvatni frá aðliggjandi lögnum sem gerir það að verkum að skólp flæðir úr brunni við flugskýli 21.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær eru þeir sem eiga aðild að þeirri lögn sem þarfnast lagfæringar á svæðinu Fluggarðar – Lóðarfélag, Flugfélag Íslands og Skeljungur hf. Rekstraraðilar hafa vísað ábyrgðinni til Reykjavíkurborgar hingað til.

Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að síðan 2008 hafi engar kvartanir borist og því hafi yfirvöld talið að eigendur hefðu aðhafst í málinu. Hinn 5. apríl síðastliðinn kom þó í ljós að svo var ekki, þar sem kvörtun vegna skólpsins barst eftirlitinu að nýju. Það sé hins vegar ljóst að ábyrgð á viðhaldi og viðgerðum lagna á svæðinu liggi hjá eigendum, í ljósi samþykktar borgarráðs frá árinu 1989. „Við höfum þetta í höndunum og það hefur ekkert komið fram sem fellir þessa samþykkt úr gildi,“ segir Rósa.

Ekki náðist í Ágúst Jónsson, framkvæmdastjóra eignasviðs Reykjavíkurborgar, í gær. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×