Innlent

Vefur Alþingis er ekki bloggsíða

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Beiðni Björgólfs Thors Björgólfssonar athafnamanns um að fá að birta athugasemdir við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á vefsvæði þingsins hefur verið hafnað.

„Heimasíða Alþingis er ekki bloggsíða heldur upplýsingasíða fyrir þjóðþingið," segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.

Björgólfur Thor hefur birt margvíslegar athugasemdir við efni skýrslunnar á vef sínum. Hann óskaði eftir því að fá þær athugasemdir birtar á vef Alþingis, þar sem skýrslan er vistuð.

Ásta segir ekki hafa komið til greina að birta athugasemdir við skýrsluna á vef þingsins, eða standa fyrir umræðum um hana á þeim vettvangi. Vefútgáfa skýrslunnar sé aðalútgáfa skýrslunnar og endanleg rit rannsóknanefndarinnar. Nóg sé af öðrum síðum á netinu til að ræða efni hennar og gera athugasemdir.

„Björgólfur hefur þegar birt athugasemdirnar á sinni vefsíðu, svo það er búið að birta þær," segir Ásta. „Vegna þessa get ég ekki fallist á þetta erindi hans."

Björgólfur Thor er sá eini sem óskað hefur eftir því við Alþingi að fá að birta athugasemdir við skýrsluna á vef þingsins, segir Ásta. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×