Erlent

Nasistaforingi deyr 97 ára að aldri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sandro Kepiro lést í dag. Mynd/ AFP.
Sandro Kepiro lést í dag. Mynd/ AFP.
Ungverski Nasistinn Sandor Kepiro lést í dag. Hann var um tíma einn mest eftirlýsti Nasisti í heimi. Kepiro var 97 ára gamall Réttað var yfir honum vegna stríðsglæpa í Búdapest í vor og telur lögmaður hans að hann hafi orðið mjög veikur af þeim réttarhöldum. Hann var sakaður um að bera ábyrgð á dauða 36 gyðinga og Serba árið 1942.

Hann var dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir þessi brot árið 1946 en flúði til Argentínu og slapp þannig undan refsingu. Réttarhöld fóru síðan aftur yfir honum nú í ár, sextíu og fimm árum seinna. Hann var aftur á móti sýknaður vegna skorts á sönnunargögnum.

Norska ríkisútvarpið segir að hann hafi á tímabili verið á lista yfir mest eftirlýstu Nasistanna. Kepiro hefur aldrei gengist við þeim ásökunum sem bornar hafa verið á hann. Hann segist ekki hafa vitað um nein fjöldamorð og hann hafi einungis sinnt skyldu sinni fyrir Ungverja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×