Innlent

Hæstvirtur forseti! Dragðu frá gluggatjöldin!

Hversvegna eru gluggatjöldin alltaf höfð dregin fyrir í þingsalnum? Þessi fyrirspurn var borin upp á Alþingi í dag og var henni fylgt eftir með kveðskap.

Það var einn reyndasti þingmaðurinn, Árni Johnsen, sem óskaði eftir skýringu forseta Alþingis á því hversvegna gluggatjöldin væru alltaf dregin fyrir.

"Það skiptir máli að fólki líði vel í þessum þingsal, nógu er þungt loftið," sagði Árni.

Hann svaraði sjálfur spurningunni.

"Ég veit vel að skýringin er sú að linsan hérna þoli ekki speglunina. En þá skipta menn bara um linsu."

Þingmaðurinn fór svo með kvæði:

Að horfa í birtuna er heillandi og ljúft

og hluti af lífsins sól.

Það er hvíld fyrir sálina og sefar margt hrjúft

er sækir í mannanna ból.

Við lifum hér fyrir luktum tjöldum

í lotlegum gömlum tón.

Það er betra í birtunni að deila völdum

en berjast í rökkri við ljón.

Virðingar forseti, taktu nú tjöldin frá

svo tærleikinn flæði skjótt.

Það er undarleg gjörð og heldur grá

að gera daginn að nótt.

Hver gluggi er gjöf með birtu í bæ

gjöf til að njóta hvers dags.

Birtan er sólblik úr himnanna sæ

og styrkir til betri hags.

Þingforseti klingdi bara bjöllunni til að reka Árna úr stólnum en svaraði engu um hvort gluggatjöldin yrðu dregin frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×