Innlent

Bjargaði syni sínum

Feðgarnir tóku við viðurkenningum sínum í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í gær. fréttablaðið/stefán
Feðgarnir tóku við viðurkenningum sínum í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í gær. fréttablaðið/stefán

Ólafur Guðnason var í gær valinn Skyndihjálparmaður ársins 2010 af Rauða krossi Íslands. Þetta er í tíunda sinn sem viðurkenningin er veitt. Í gær var 112-dagurinn, neyðarlínudagur sem er haldinn í mörgum Evrópuríkjum.

Ólafur sýndi hárrétt viðbrögð þegar hann lenti í bílslysi ásamt syni sínum fjarri byggð síðasta sumar. Hann bjargaði lífi sonar síns, Ólafs Diðriks Ólafssonar, með því að stöðva miklar blæðingar á höfði og handlegg hans þegar bíll þeirra valt á Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði. Ólafur Diðrik keyrði bílinn en sofnaði undir stýri og missti stjórn á bílnum, sem fór út af og valt. Bíllinn gjöreyðilagðist.

Ólafur Diðrik var með skerta meðvitund, marga skurði á höfðinu og það fossblæddi úr hnakka hans, meðal annars. Hann reyndist vera með brákaða höfuðkúpu og brákaða háls- og hryggjarliði. Kraftaverk þykir að hann hafi ekki lamast.

Sex aðrir fengu viðurkenningar fyrir beitingu skyndihjálpar og lífsbjörg. Ágúst Þorbjörnsson endurlífgaði félaga sinn á Hvamms­tanga, Sæþór Þorbergsson endurlífgaði gest í líkamsræktarstöð í Stykkishólmi, Alfreð Gústaf Maríus­son endurlífgaði samstarfsmann sinn í grunnskóla í Hafnar­firði og Erna Björg Gylfadóttir endurlífgaði systur sína ásamt vinnufélögum í HB Granda á Akranesi. Þá losaði Borghildur Sverris­dóttir í Hafnarfirði aðskotahlut úr hálsi föður síns og Benedikt Gröndal losaði aðskotahlut úr hálsi sonar síns. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×