Innlent

Óskynsamlegt að hræra í innyflum annarra

Mynd/GVA
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, segir óskynsamlegt að formenn flokka séu að blanda sér í innri flokksmál hvor hjá öðrum. Ekki eigi að „hræra í innyflum hvers annars."

Rætt er við Steingrím á Smugan.is um yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær. Hún sagði m.a. að þeir stjórnarliðar sem líti á stjórnarsáttmálann sem plagg sem ekki þurfi að taka mark á væru að leika sér að eldinum. Ennfremur sagði Jóhanna að það væri hættulegur leikur að spila pólitískan einleik á kostnað samstarfsfélaga sinna í trausti þess að samstaða annarra og stuðningur við óvinsælar en óhjákvæmilegar ákvarðanir tryggi að uppúr stjórnarsamstarfinu slitni ekki.

Steingrímur segist sjálfur hafa þá reglu í heiðri að blanda sér ekki í innri málefni Samfylkingarinnar með beinum hætti. „Ég held að forysta Samfylkingarinnar ætti að taka unga jafnaðarmenn til fyrirmyndar sem eru að borða með ungum Vinstri grænum í kvöld [gærkvöld - innskot blm.]. Það er mun vænlegra að fólk reyni að tala og vinna saman en að hræra í innyflum hvers annnars. Við getum öll lært af unga fólkinu."


Tengdar fréttir

Órólega deildin leikur sér að eldinum

Þeir stjórnarliðar sem líta á stjórnarsáttmálann sem plagg sem ekki þurfi að taka mark á eru að leika sér að eldinum, að mati Jóhannu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Hún segir óróleika innan VG hafa skaðað ríkisstjórnarsamstarfið og dregið úr trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×