Innlent

Ólína: Höfum fengið nóg af hótanapólitík Samtaka atvinnulífsins

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Þingmaðurinn Ólína Þorvarðardóttir segir Samfylkingarfólk búið að fá meira en nóg af „hótanapólitík" Samtaka atvinnulífsins og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Það hafi komið skýrt fram á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær.

„Í ályktun fundarins er viðleitni samtakanna til þess að hafa áhrif á stjórnvaldsákvarðanir um fiskveiðistjórnunarkerfið harðlega fordæmd og Samtök atvinnulífsins minnt á að þau fari ekki með löggjafarvald í landinu," segir Ólína í pistli á Eyjunni.

Á flokksstjórnarfundinum sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, engan vilja bera ábyrgð á því að völdin fari í hendurnar á íhaldsöflunum, þar sem sérhagsmunir forréttindastéttanna taki aftur völdin. Á liðnum dögum hafi þjóðin verið minnt íllþyrmilega á tilvist þessara hagsmunagæsluafla, bæði með gíslatöku LÍÚ á kjarasamningum og andstöðunni við stjórnlagaþingið. Sem snúist aðeins um eitt, baráttuna um auðlindir þjóðarinnar.

Vegna ræðu Jóhönnu sendu bæði Samtök atvinnulífsins og LÍÚ frá sér yfirlýsingar, en SA segja að árásir forsætisráðherra á LÍÚ eigi sér engar málefnalegar forsendur. Sjávarútvegsfyrirtæki hafi starfað eftir lögum sem mótuð voru í tíð ríkisstjórna sem Jóhanna sat í og beri því mikla ábyrgð.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra haldi ró sinni

Samtök atvinnulífsins telja brýnt að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, haldi ró sinni. Hún hafi ráðist með fordæmalausum hætti á samtökin og eitt aðildarfélag þess, Landssamband íslenskra útvegsmanna, á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. LÍÚ gagnrýnir rangfærslur í máli Jóhönnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×