Innlent

70 ára afmæli flugvallarins haldið á laugardag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugsýning verður haldin á Reykjavíkurflugvelli á laugardag þar sem minnst verður 70 ára afmælis flugvallarins. Breskur herflugmaður í síðari heimstyrjöld var fyrsti flugmaðurinn sem lenti á vellinum og kemur hann sérstaklega til landsins til að fagna tímamótunum.

Fyrsti flugmaðurinn til að lenda á Reykjavíkurflugvelli vorið 1941 var herflugmaður að nafni Hugh Eccles úr 269. flugsveit konungalega breska flughersins, sem staðsett var á Kaldaðarnesflugvelli við Ölfusá. Hann lenti tveggja hreyfla sprengjuflugvél af Hudson-gerð en þær voru einkum notaðar til árása á þýska kafbáta á hafinu umhverfis Ísland.

Hugh Eccles er nú kominn á tíræðisaldur og er væntanlegur til Íslands ásamt fjórum öðrum gömlum flugsveitarmönnum til að minnast tímamótanna um helgina. Til stóð að halda flugdaginn á Reykjavíkurflugvelli í vor en aska úr Grímvatnagosinu kom í veg fyrir það þá. Áætlað er að 25 til 30 flugvélar taki þátt í flugsýningunni sem stendur yfir frá kl. 13 til 15 á laugardag, en sýningarsvæðið á Reykjavíkurflugvelli verður opið milli kl. 12 og 16.

Meðal flugatriða má nefna nákvæmnisflug og slökkviflug á þyrlu, fallhlífastökk úr þristi, hópflug og listflug, þar sem sýnd verða atriði sem ekki hafa áður sést hérlendis. Módelflugvélar og fis verða á lofti en stærsta flugvélin sem tekur þátt í sýninginni er Boeing 757 þota frá Icelandair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×