Innlent

Heilbrigðisnefnd samþykkir staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni

Myndini er úr safni.
Myndini er úr safni.
Meirhluti Heilbrigðisnefndar hefur afgreitt þingsályktunartillögu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með breytingartillögu.

Málið var afgreitt úr nefndinni á mánudaginn og búist er við því að þingsályktunartillagan fari í aðra umræðu á Alþingi á næstunni. Ragnheiður Elín sagðist í samtali við fréttastofu fagna þessari niðurstöðu og sagði nefndina samþykkja þingsályktunina með nokkrum orðalagsbreytingum en inntakið væri það sama. Heilbrigðisnefnd hefur rætt við fjölmarga sérfræðinga við vinnslu málsins.

Í breytingartillögu við þingsályktunartillögu Ragnheiðar Elínar leggur meirihluti heilbrigðisnefndar til að velferðarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Við vinnuna verði m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra.

Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu.

Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra þjóða lögð til grundvallar. Frumvarpið verði lagt fram á Alþingi eigi síðar en 1. mars 2012. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×