Innlent

Ró yfir Kötlu í nótt

Mynd/GVA
Lítið var um jarðskjálfta í Mýrdalsjökli í nótt eftir óróa síðustu daga. Um sjö smáskjálftar sjást á mælum veðurstofunnar en í gær voru þeir á þriðja tug. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, flaug yfir Kötlu í gærkvöldi ásamt vísindamönnum, sérfræðingum frá Veðurstofu Íslands og fulltrúa frá Almannavörnum.

Í samtali við fréttastofu að loknu flugi sagði Magnús að greinileg aukning sé í jarðhita undir jöklinum og að Katla sýni nú ýmis merki sem túlka megi sem langtíma undanfara eldgoss. Veruleg aukning hefur orðið í jarðskjálftavirkni á svæðinu í sumar og merki eru um útþenslu á litlu dýpi. Magnús segir að það séu dæmigerðir langtíma forboðar eldgoss en það þýði ekki endilega að þessi þróun endi með eldgosi á næstunni.

Slíkir forboðar eru að hans sögn mun algengari en sjálf eldgosin, því atburðarásin lognast stundum útaf án þess að leiða til goss. Engu að síður þurfi að fylgjast vel með svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×