Innlent

Ökuþór á sjötugsaldri slapp með skrekkinn

mynd/valli
Ökumaðurinn sem slasaðist eftir kappakstur á Hafnarfjarðarvegi í fyrrakvöld er 66 ára gamall, fæddur í nóvember árið 1944. Myndband úr leigubíl virðist sýna að hann hafi att kappi við hálfþrítugan ökumann annars bíls á vel rúmlega hundrað kílómetra hraða.

Svo virðist sem mennirnir tveir þekkist ekkert. Af myndbandinu má ráða að annar þeirra hafi einfaldlega ekið upp að hinum og í kjölfarið hafi þeir báðir aukið hraðann mjög, og sá yngri elt þann eldri á ofsahraða.

Betur fór en á horfðist þegar eldri maðurinn missti stjórn á kraftmiklum Dodge Charger-bíl sínum, hann lenti á ljósastaur og valt nokkur hundruð metra út af veginum við Fífuhvammsveg. Bíllinn var ákaflega illa farinn á eftir og var í fyrstu talið að maðurinn hefði slasast mjög alvarlega. Svo reyndist þó ekki vera. Hundur sem var með honum í bílnum drapst hins vegar.

Lögreglumenn sem Fréttablaðið ræddi við í gær sögðu afskaplega óvenjulegt að maður á þessum aldri hegðaði sér með þessum hætti; yfirleitt væru það unglingar og ungmenni sem stæðu fyrir ábyrgðarlausum kappakstri innan um aðra vegfarendur, en ekki ökumenn sem komnir væru að ellimörkum.

Heimildir Fréttablaðsins herma raunar að þetta sé ekki í fyrsta sinn á síðustu vikum og mánuðum sem lögregla fær veður af einkennilegu og „gruggugu“ háttalagi mannsins í umferðinni, eins og það er orðað.

Yngri maðurinn stakk af af vettvangi en gaf sig fram síðar um kvöldið.

Sýni voru tekin úr mönnunum til að kanna hvort þeir hefðu verið allsgáðir undir stýri. Það lá ekki fyrir í gær.stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×