Innlent

Áfallahjálp í Office 1 vegna verslunarstjóra

Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Egilson ehf., sem rekur Office 1, segir mikinn og þungbæran trúnaðarbrest hafa orðið þegar verslunarstjóri til margra ára varð uppvís að stórþjófnaði.Fréttablaðið/Hörður
Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Egilson ehf., sem rekur Office 1, segir mikinn og þungbæran trúnaðarbrest hafa orðið þegar verslunarstjóri til margra ára varð uppvís að stórþjófnaði.Fréttablaðið/Hörður
„Þetta er hálfpartinn eins og að takast á við dauðsfall í fjölskyldunni,“ lýsir Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Office 1, áhrifum þess að samstarfsmaður til margra ára var rekinn vegna stórfellds þjófnaðar.

Tveir verslunarstjórar hjá Office 1 hafa verið látnir hætta á þessu ári vegna þess að þeir stálu samtals tugmilljónum króna frá fyrirtækinu að sögn Kjartans. Annar þeirra hefur viðurkennt þjófnað en hinn segist saklaus. Bæði þessi mál voru kærð til lögreglu þar sem þau eru í rannsókn.

Að sögn forstjórans er í öðru tilfellinu um að ræða mjög alvarleg auðgunarbrot. Í því máli liggi játningin fyrir. „Það var svo mikill vinur og félagi starfsfólksins að þegar það mál kom upp þá varð að kalla til sálfræðinga. Þegar svona mikill trúnaðarbrestur verður milli einstaklinga getur það haft miklu víðtækari áhrif en að starfsmanni sé einfaldlega sagt upp og lífið haldi áfram eins og frá var horfið,“ segir Kjartan, sem eins og fyrr kemur fram lýsir áhrifunum eins og andláti innan fjölskyldu.

Kjartan segir miklu hafa verið breytt hjá fyrirtækinu í kjölfar þjófnaðarmálanna „Við erum búin að setja upp mjög öflugt öryggismyndavélakerfi sem er með sívöktun starfsmanna,“ segir forstjórinn, sem kveður starfsmenn einnig hafa verið senda á námskeið um þessi mál.

Eftir að verslunarstjórarnir voru látnir taka pokana sína var næturverði sagt upp störfum vegna þjófnaðar. Næturvörðurinn viðurkenndi með skriflegri yfirlýsingu að hann hefði stolið iPod-hátalara að verðmæti 27.900 krónur og samþykkti að hætta strax og afsala sér ógreiddum launum.

Kjartan skýrði öðrum starfsmönnum frá aðdragandanum að brotthvarfi næturvarðarins með fjöldapósti. Það kærði næturvörðurinn til Persónuverndar. Sagði hann meðal annars að þjófnaðurinn væri ósannaður „Þetta er mjög óþægileg staða fyrir mig,“ sagði í kæru næturvarðarins.

Persónuvernd úrskurðaði að útsending fjöldapóstsins hefði verið óheimil. Kjartan segist vitanlega munu taka mið af niðurstöðunni en honum finnist þó umhugsunarvert að samkvæmt úrskurðinum hafi verið heimilt að upplýsa alla starfsmenn um málið á starfsmannafundi en ekki með tölvupósti. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×