Erlent

Mikið mannfall í Sýrlandi síðustu daga

Mótmælendur í Kfar Nebel í Sýrlandi halda á borða sem stendur á „ef við höfum ekki olíu eins og Írak og Líbía, eigum við þá ekki skilið að lifa?“ fréttablaðið/ap
Mótmælendur í Kfar Nebel í Sýrlandi halda á borða sem stendur á „ef við höfum ekki olíu eins og Írak og Líbía, eigum við þá ekki skilið að lifa?“ fréttablaðið/ap
Fjöldi fólks lét lífið í mótmælum í Sýrlandi um helgina og margir til viðbótar voru handteknir. Alþjóðanefnd Rauða krossins er í höfuðborginni til að skoða aðbúnað særðra og aðgang að þeim sem eru í haldi lögreglu.

Sex hermenn voru meðal þeirra sem létust í gær. Vopnaður hópur manna er sagður hafa gert skyndiárás á rútu og drepið sex hermenn og þrjá óbreytta borgara. Sautján til viðbótar særðust í árásinni. Þrír árásarmannanna voru skotnir til bana í átökum eftir árásina. Mótmælendur segja að þrjátíu manns hafi verið drepnir síðan á föstudag.

Leiðtogi Arababandalagsins, Nabil al-Arabi, ætlar að heimsækja landið í vikunni. Heimsókninni er ætlað að setja frekari þrýsting á stjórnvöld í Damaskus að gera breytingar og hætta árásum á óbreytta borgara. Óvíst er þó hversu mikil áhrif heimsóknin mun hafa og hversu miklum þrýstingi bandalagið er tilbúið að beita.

Evrópusambandið bannaði á föstudag innflutning á olíu frá Sýrlandi. Bandaríkin hafa þegar gert slíkt hið sama auk þess sem kallað hefur verið eftir afsögn Assads forseta. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×