Erlent

Björguðu hnúfubakskálfi

Brimbrettakappar og starfsmenn sædýrasafns tóku höndum saman í Ástralíu til að bjarga hnúfubakskálfi sem hafði synt í strand á Gullströndinni svokölluðu.

Kálfurinn hafði lagið á ströndinni í tæpar tólf klukkustundir áður en tókst að losa hann og koma til sjávar. Jarðýta var notuð til þess að opna lænu fyrir hann meðan strandverðir og sjálfboðaliðar svipuðust um eftir mömmunni.

Dýralæknar frá Seaworld sædýragarðinum skoðaði kálfinn og sagði að þótt hann væri dasaður myndi hann fljótt ná sér ef hægt væri að koma honum út á dýpra vatn.

Það var því komið á hann köðlum og tvær sæþotur og sjálfboðaliðar drógu hann af ströndinni. Hann var frelsinu feginn og synti til hafs.

Sérfræðingar Seaworld sögðu að þótt ekki hefði sést til mömmunnar væri auðvelt fyrir þau að tala saman yfir langa vegu og hittast á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×