Erlent

Á sjötta tug létu lífið í átökum

Sýrlendingar í Egyptalandi mótmæltu stjórn Basjars Assad Sýrlandsforseta í gær. Fréttablaðið/AP
Sýrlendingar í Egyptalandi mótmæltu stjórn Basjars Assad Sýrlandsforseta í gær. Fréttablaðið/AP
Sýrlenski stjórnarherinn réðst í gær gegn uppreisnarmönnum í þremur borgum í landinu í gær. Mannréttindasamtök sem fylgjast grannt með ástandinu segja í það minnsta 52 hafa fallið í árásunum.

Hörðust voru átökin í borginni Deir el-Zour þar sem hermenn bundu enda á níu daga umsátur um borgina og réðust á uppreisnarmenn. Vitað er um 42 sem létust. Ástandið í borginni er sagt afar alvarlegt. Talsmaður uppreisnarmanna segir skorta lyf, mat og eldsneyti.

Árás hermanna á borgina Hama héldu einnig áfram. Talsmaður spítala í borginni sagði í gær að átta fyrirburar sem voru í hitakössum hafi látist í síðustu viku eftir að hermenn tóku rafmagnið af spítalanum.

Harðar árásir stjórnarhersins á vígi uppreisnarmanna hófust við upphaf Ramadan, helgimánaðar múslima. Talið er að Basjar Assad, forseti Sýrlands, vilji koma í veg fyrir að fjöldasamkomur í moskum landsins breytist í allsherjarmótmæli gegn stjórn hans.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×