Íslenski boltinn

Umfjöllun: Óskar Örn tryggði KR jafntefli í blálokin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson. Mynd/Vilhelm
Óskar Örn Hauksson tryggði KR 1-1 jafntefli á móti Keflavík á KR-vellinum í 2. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld þegar hann skoraði jöfnunarmarkið á 90. mínútu leiksins. KR-ingar áttu stigið skilið en markið í lokin kom eftir mikla pressu að marki Keflavíkur.

Hilmar Geir Eiðsson kom Keflavík yfir á 61. mínútu eftir sendingu frá Guðmundi Steinarssyni en Keflvíkurliðið bakkaði mikið eftir að þeir komust yfir.



Leikurinn hófst heldur rólega og liðin þurftu greinilega smá tíma til að fóta sig. KR-ingar virkuðu samt sem áður ákveðnari og eftir um fimmtán mínútna leik fengu heimamenn fyrsta færi leiksins.

Kjartan Henry Finnbogason slapp einn í gegn eftir virkilega fína stungusendingu frá Baldri Sigurðssyni, en Kjartan skaut naumlega framhjá.

Nokkrum mínútum síðar vildi KR-ingar fá dæmda vítaspyrnu þegar Ómar Jóhannsson, markvörður Keflvíkinga, virtist keyra niður Guðmund Reyni Gunnarsson, leikmann KR, innan vítateigs. Mjög umdeilt atvik, en Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins, var viss í sinni sök og dæmdi einungis hornspyrnu.

Eftir hálftíma leik fengu gestirnir fyrsta færið sitt í leiknum, en það var af dýrari gerðinni. Jóhann Birnir Guðmundsson, leikmaður Keflvíkinga, fékk boltann í lappirnar eftir skrautlegt skógarhlaup frá Hannesi Halldórssyni, markverði KR, en skot hans fór rétt yfir.

Strax í kjölfarið geystust KR-ingar í sókn, Óskar Örn Hauksson spólaði sig í gegnum vörn Keflvíkinga, og náði fínu skoti að markinu sem Ómar Jóhannsson varði vel.

Staðan var því 0-0 í hálfleik og útlit fyrir fjörugri síðari hálfleik.

Síðar hálfleikurinn hófst rétt eins og sá fyrri og liðin lengi í gang.

Keflvíkingar hresstust við þegar leið á síðari hálfleikinn og eftir um korters leik þá kom fyrsta mark leiksins. Hilmar Geir Eiðsson skoraði virkilega laglegt mark eftir frábæra stungusendingu frá Guðmundi Steinarssyni.

Eftir mark Keflvíkinga fóru heimamenn í KR í gang og allt annað að sjá spilamennsku liðsins.

Það ætlaði samt sem áður að reynast erfitt fyrir KR-inga að jafna metinn en tíu mínútum fyrir lok leiksins komst Guðjón Baldvinsson í algjört dauðafæri. Guðjón fékk boltann rétt fyrir framan mark Keflvíkinga, en náði ekki nægilega góðu skoti á markið og Ómar Jóhannesson varði vel í marki Keflvíkinga.

Það var síðan á 90.mínútu leiksins þegar KR-ingar náðu loksins að skora og jafna leikinn. Þar var að verki óskar örn Hauksson sem kom boltanum framhjá Ómari í markinu eftir laglegt skot með hægri fæti.

Keflvíkingar voru alls ekki sáttir við Gunnar Jarl ,dómara leiksins, en leikmaður liðsins lá óvígur eftir inn í vítateignum þegar jöfnunarmark KR kom.

Keflvíkingar vildu síðan fá vítaspyrnu í restina þegar Magnús Sverrir Þorsteinsson, leikmaður Keflavíkur, var sloppinn einn í gegn og Grétar Sigfinnur Sigurðarsson, leikmaður KR, náði að tækla leikmanninn niður.

KR-ingar vildu meina að hann hafi aðeins tekið boltann og Keflvíkingar vildu fá dæmda vítaspyrnu. Umdeilt atvik undir lok leiksins, en jafntefli var nokkuð sanngjörn niðurstaða.

KR 1 – 1 Keflavík - tölfræðin í leiknum0-1 Hilmar Geir Eiðsson (61.)

1-1 Óskar Örn Hauksson (90.)



Áhorfendur: óuppgefið

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson - 6

Skot (á mark): 9 - 4 (5-1)

Varin skot: Hannes 0– 4 Ómar

Horn: 6 – 1

Aukaspyrnur fengnar: 14 – 7

Rangstöður: 1- 1



KR (4-3-3)

Hannes Þór Halldórsson 6

Magnús Már Lúðvíksson 5

Skúli Jón Friðgeirsson 5

Grétar Sigfinnur Sigurðsson 6

Guðmundur Reynir Gunnarsson 7

Bjarni Guðjónsson 6

Viktor Bjarki Arnarsson 5

Baldur Sigurðsson 6

Óskar Örn Hauksson 7 * maður leiksins

Kjartan Henry Finnbogason 6

Guðjón Baldvinsson 6

Keflavík (4-5-1):

Ómar Jóhannsson 7

Guðjón Árni Antoníusson 6

Haraldur Freyr Guðmundsson 6

Adam Larsson 5

Goran Jovanovski 6

Hilmar Geir Eiðsson 7

(86. Grétar Ólafur Hjartarson - )

Andri Steinn Birgisson 7

Einar Orri Einarsson 6

Jóhann Birnir Guðmundsson 5

(76. Magnús Sverrir Þorsteinsson - )

Magnús Þórir Matthíasson 6

Guðmundur Steinarsson 7

(88. Bojan Stefán Ljubicic - )




Fleiri fréttir

Sjá meira


×