Innlent

Tíu fræðirit tilnefnd til verðlauna Hagþenkis

Hagþenkir hefur veitt viðurkenningar frá 1986.
Hagþenkir hefur veitt viðurkenningar frá 1986.
Tíu höfundar eru tilnefndir til viðurkenningar Hagþenkis 2010, sem kynntar voru í húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar í gær. Sigurvegarinn verður kunngjörður um miðjan næsta mánuð.

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur veitt viðurkenningar fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings allar götur síðan 1986.

Viðurkenningarráð Hagþenkis tilnefnir 10 höfunda og velur í kjölfarið þann sem hlýtur viðurkenninguna. Ráðið er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ólíkum fræðasviðum. Ráðið skipa: Þórður Helgason, bókmenntafræðingur og formaður ráðsins, Geir Sveinsson, bókmenntafræðingur og þýðandi, Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur, Kristín Unnsteinsdóttir, uppeldis- og kennslufræðingur, og Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur og ljósmyndari. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir.

Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna.

Tvö bókaforlög eiga tvær tilnefndar bækur hvort, Forlagið og Háskólaútgáfan, en hinar sex tilnefningarnar dreifast á jafn mörg forlög. Þrjú tilnefnd rit eru einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna: Gunnar Thoroddsen, Þóra biskups og Sveppabókin. Helgi Hallgrímsson er eini tilnefndi höfundurinn sem hefur hlotið viðurkenningu Hagþenkis áður og það reyndar í tvígang: bæði hlaut hann fyrstu viðurkenningu Hagþenkis fyrir tæpum aldarfjórðungi og sömuleiðis árið 2005 fyrir rit sitt um Lagarfljót.

Tilkynnt verður hvaða höfundur hreppir hnossið við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni um miðjan mars næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×