Innlent

Flýja til baka til Noregs vegna skattpíningar

Sú þróun sem hófst á níundu öld, að Íslendingar flúðu Noreg vegna skattpíningar, hefur snúist við og flýja þeir nú til baka undan íslenskri skattpíningu. Þetta var sagt á Alþingi í dag í umræðum um skattamál þar sem ríkisstjórnin var sögð hafa hækkað alla skatta sem hægt væri að hækka.Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hóf umræðuna og sagði skattastefnu stjórnvalda vinna gegn hagvexti. Almenningur, sem mátt hefði þola mikla kjararýrnun, væri skattpíndur. Erlendri og innlendri fjárfestingu í atvinnulífinu væri haldið niðri með skattkerfi sem refsi fyrir uppbygginu en verðlauni stöðvun. 

Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, sagði skattabreytingarnar hins vegar vel heppnaðar og hafa náð tilætluðum árangri. Tekjufall ríkisins hefði verið stöðvað og áherslum breytt. Skattkerfið hefði verið fært aftur til baka til hins norræna módels. Tekjulægsta fólkinu hefði verið hlíft en meiri byrðar verið lagðar á þá sem hæstar hefðu tekjurnar, mestar fjármagnstekjur og mestar skuldlausar eignir. Álagningin sýndi að þessar aðgerðir hefðu heppnast vel.

Sjálfstæðimenn sögðu stórhækkun á sköttum, eins og bensíngjöldum, einnig bitna á lágtekjufólki. Birgir Ármannsson sagði ríkisstjórnina hafa hafa hækkað alla meginskatta en einnig svo til alla sérskatta.

"Ég hef allavega ekki fundið neitt dæmi um skatt sem þessi ríkisstjórn hefur ekki hækkað," sagði Birgir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vék sögunni aftur til upphafs Íslandsbyggðar:

"Og mér skilst að það sé komið í hámæli í norska þinginu að nú hafi loksins orðið viðsnúningur á þeirri þróun sem hófst á níundu öld, þegar Íslendingar flúðu Noreg vegna skattpíningar, - þeir hafi nú snúið við til Noregs vegna þess að dæmið hefur snúist við."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×