Innlent

Meiri peningar settir í stjórnlagaþing en vegagerð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Kostnaður við stjórnlagaþing stefnir í að verða talsvert meiri en sem nemur allri nýrri vegagerð sem boðin hefur verið út í landinu frá því ákveðið var að efna til stjórnlagaþings.

Kosningarnar til stjórnlagaþingsins, sem úrskurðaðar voru ólögmætar, hafa þegar kostað skattborgara hartnær 300 milljónir króna. Ef við bætist þinghaldið sjálft, sem og aðrar kosningar, er áætlað að heildarkostnaður fari yfir 800 milljónir króna.

Athyglisvert er að bera þessar fjárhæðir saman við þær nýframkvæmdir í vegagerð sem stjórnvöld hafa hrint af stað frá því lög um stjórnlagaþing voru sett síðastliðið sumar. Nýjasta útboðið var stuttur kafli á Vestfjarðavegi nú í janúar fyrir 116 milljónir króna. Hin útboðin hafa verið brúarsmíði á Jökuldal fyrir 81 milljón króna, vegtenging við Mógilsá fyrir 13 milljónir króna, lokakafli Suðurstrandarvegar fyrir 242 milljónir króna, rannsóknarboranir á Vaðlaheiði fyrir 40 milljónir króna og í fyrrasumar var boðin út ræsagerð í Flóa fyrir 16 milljónir króna.

Alls hafa verið boðin út frá því í fyrrasumar sex verkefni upp á liðlega 500 milljónir króna, sem er talsvert lægri fjárhæð en þær 800 milljónir sem stefnir í að fari í stjórnlagaþingið.

Þessi samanburður gefur vísbendingu um breyttar áherslur. Áður þótti það helsta kappsmál þingmanna að stuðla að vegarbótum. Nú eru verklegar framkvæmdir í lágmarki en umbætur á stjórnlögum settar í forgang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×