Innlent

Steingrímur og Bjarni sammála um synjunarvald forseta

Steingrímur J. Sigfússon var hissa á ákvörðun forseta að synja lögum sem 70% þingmanna studdi
Steingrímur J. Sigfússon var hissa á ákvörðun forseta að synja lögum sem 70% þingmanna studdi Mynd: Vilhelm Gunnarsson
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vill láta breyta 26. grein stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta. Fleiri þingmenn tóku undir þetta í umræðum á Alþingi í dag.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hóf þar umræður um dagskrárliðinn Synjun forseta Íslands á Icesave-lögnum.

Þingmenn allra flokka, utan Framsóknarflokks, hafa lýst því yfir að ræða þurfi mögulegar breytingar á 26. greininni.

Bjarni sagði viðbrögð ríkisstjórnarinnar við synjuninni vera einkennandi fyrir viðbrögð stjórnarinnar við fjölda mála, og fannst þau sýna að hún væri algjörlega óundirbúin. „Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru í þessu máli, eins og hún hefur verið í svo mörgum og mikilvægum málum, óundirbúin," sagði Bjarni.

Steingrímur sagðist alls ekki hafa verið óundirbúinn, hann hefði þó verið mjög hissa. Honum finnst ekki eðlilegt að það sé í höndum eins manns að taka ákvörðun um afdrif laga sem Alþingi hefur samþykkt með auknum meirihluta, og bendi á að 70% þeirra þingmanna sem tóku afstöðu hafi samþykkt lögin.

„Í því ljósi fannst manni ólíklegra en ella að þingræðið yrði sett til hliðar með þessum hætti," sagði Steingrímur

Bjarni opinberaði einnig þá skoðun sína að honum fyndist þetta ekki eðlilegt fyrirkomulag en vakti athygli á því að þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd hafi einmitt verið reynt að vinna að því að breyta 26. greininni, við mikla andstöðu þeirra sem nú sitja við stjórnarvölinn, og vísaði Bjarni þar til umræðna í tengslum við synjun Ólafs Ragnars Grímssonar á fjölmiðlalögunum árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×