Innlent

Sakfelld fyrir meiðyrði í Lúkasarmálinu

Hundurinn Lúkas sem var alls ekki drepinn, eins og sumir héldu
Hundurinn Lúkas sem var alls ekki drepinn, eins og sumir héldu
Tæplega þrítug kona hefur verið dæmd til að greiða Helga Rafni Brynjarssyni 200 þúsund krónur í miskabætur vegna Lúkasarmálsins svokallaða. Þá hafa tvenn ummæli sem konan lét falla á vefsíðu sinni um Helga verið dæmd dauð og ómerk.

Auk þessa þarf konan að greiða 100 þúsund krónur til birtingar á niðurstöðu dómsins og 400 þúsund krónur vegna málskostnaðar Helga. Alls gera þetta 700 þúsund krónur sem henni er gert að greiða.

Upphaf málsins má rekja til þess að sumarið 2007 spruttu upp umræður á Netinu um að hundurinn Lúkas, sem þá hafði verið týndur í nokkurn tíma, hefði verið drepinn með hrottafengnum hætti. Í kjölfar þessarar umræðu birtist nafn Helga Rafns á fjölda vefsíða þar sem fullyrt var að hann hefði drepið hundinn

Helgi Rafn varð fyrir gríðarlegu aðkasti vegna þessa, og fékk meðal annars lífslátshótanir í símann sinn og á vefsíðu auk þess sem hundruðir einstaklinga tóku þðátt í umræðu um málið á Netinu.

Í dómi segir að umrædd kona hafi gengið einna harðast fram í málinu með hótunum og aðdróttunum í garð Helga, en hún hafi á vef sínum birt ærumeiðandi ummæli um hann á vefsíðu sinni, auk þess sem hún birti mynd af honum.

Þau ummæli sem dæmd voru dauð og ómerk eru: „framdi ógeðslegan glæp" og „...Þarsem að hundurinn hefur verið öskrandi í töskunni og hélt drengurinn áfram að sparka þartil það var ljóst að hundurinn væri látinn".








Fleiri fréttir

Sjá meira


×