Innlent

Neyðaráætlun um Kvikmyndaskóla

Unnið er að bráðabirgðalausn fyrir nemendur Kvikmyndaskóla Íslands, að þeirra ósk. Þá er einnig hugað að framtíðarskipulagi kvikmyndanáms á Íslandi.
Unnið er að bráðabirgðalausn fyrir nemendur Kvikmyndaskóla Íslands, að þeirra ósk. Þá er einnig hugað að framtíðarskipulagi kvikmyndanáms á Íslandi.
Svandís Svavarsdóttir, starfandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað hóp til að finna lausn á málefnum nemenda Kvikmyndaskóla Íslands.

Markmiðið er að finna viðeigandi kennslu fyrir þá sem skráðir eru í skólann nú þegar.

Nemendur komu að máli við ráðherra á mánudag og óskuðu eftir því að ráðuneytið tryggði námsframvindu þeirra og stæði vörð um gæði námsins.

Þeir telja að skólinn geti ekki uppfyllt skuldbindingar sínar við þá og óskuðu því liðsinnis ráðherra. „Nemendur óskuðu eftir innkomu ráðuneytisins við að finna bráðabirgðalausn svo þeir geti haldið áfram námi eins fljótt og kostur er,“ segir Svandís.

Starfshópurinn hefur óskað efir upplýsingum frá skólanum um námsframvindu nemendanna. Í framhaldi af því verður leiða leitað til að finna lausnir. Svandís segir að það verði að gerast á allra næstu dögum.

„Það er ljóst að þarna er um að ræða neyðaráætlun sem tekur hliðsjón af stöðu þessara nemenda. Við þurfum samhliða þessari ráðstöfun að vinna að stefnumótun um nám í kvikmyndagerð á Íslandi til lengri tíma.“

Svandís segir æskilegt að nýnemar geti skráð sig inn í nýtt námsfyrirkomulag haustið 2012.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×