Innlent

Skólasetning bíður nýrrar byggingar

Gert er ráð fyrir því að setja skólann formlega í nýju húsnæði 3. október. Fréttablaðið/valli
Gert er ráð fyrir því að setja skólann formlega í nýju húsnæði 3. október. Fréttablaðið/valli
Barnaskóli Hjallastefnunnar í Hafnarfirði hefur ekki verið settur formlega þar sem hús undir starfsemina er ekki tilbúið. Skólastarf er engu að síður hafið og nýbygging að rísa við hlið upprunalegs leikskóla Hjallastefnunnar.

„Við gerum ráð fyrir að geta sett skólann formlega 3. október,“ segir skólastjórinn Sara Dögg Svanhildardóttir. Börnin mæti þó þegar í skólann daglega og fái kennslu. Notast sé við hluta af húsnæði leikskólans, við hliðina á byggingarreitnum, og safnaðarheimili Víðistaðakirkju. „En lögum samkvæmt megum við ekki kalla það formlegt skólastarf fyrr en við erum komin í hús,“ segir Sara. Allt sé þetta gert í fullri sátt við foreldrahópinn.

Skólinn lenti á hrakhólum með húsnæði þegar færanleg bygging sem Hafnarfjarðarbær hafði leyft þeim að nota frítt var tekin og flutt í Vallahverfið í vor til að anna aukinni þörf fyrir leikskólapláss við leikskólann Bjarkarvelli. Í kjölfarið ákvað Hjallastefnan að reisa eigið hús.

Sara segir stöðuna bitna merkilega lítið á starfinu. „Þetta truflar okkur ævintýralega lítið. Það sem gerir það að verkum að þetta gengur upp er einstakur starfsmannahópur.“ - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×