Erlent

Sektuð fyrir vatnsskemmdir og má ekki fara inn til nágrannans í tvö ár

Valur Grettisson skrifar
Dorrit Moussaieff má ekki fara inn í íbúð nágrannans í tvö ár.
Dorrit Moussaieff má ekki fara inn í íbúð nágrannans í tvö ár.

Dorrit Moussaieff hefur verið dæmd til þess að greiða innanhússhönnuðinum Tiggy Butler þúsund pund, eða um 185 þúsund krónur vegna vatnsskemmda, og hefur að auki verið meinað að stíga yfir þröskuld heimilis hennar í tvö ár. Þetta kemur fram í Daily Mail en þar kemur einnig fram að forsetafrúin ætli að áfrýja málinu.

Dómurinn er afleiðing nágrannaerja á milli Dorritar og Tiggyar, sem var ástkona Tony Ryan, sem stofnaði Ryanair flugfélagið.

Það var fyrir um tveimur árum sem vatn lak úr glæsiíbúð Dorritar í húsi sem snýr út að torgi í auðmannahverfinu Knightsbridge í London. Tiggy býr fyrir neðan hana.

Dorrit á að hafa farið út úr íbúð sinni, niður á hæðina til Tiggys, þar sem hún á að hafa farið óboðin inn á heimili innanhúshönnuðarins, sem kom að Dorrit þar sem hún á að hafa staðið á miðju stofugólfinu.

Tiggy brást hin versta við og heimtaði að Dorrit yfirgæfi íbúðina, en hún neitaði að fara. Í kjölfarið lögsótti Tiggy forsetafrúna fyrir vatnsskemmdir og að hafa farið í leyfisleysi inn í íbúðina. Þá sakaði hún Dorrit einnig um ógnandi hegðun, hótanir, áreiti og að hafa misnotað diplómatíska friðhelgi sína. Þessu neitar Dorrit staðfastlega.

Nágrannaerjurnar eiga sér einhverja forsögu. Þannig kemur fram í Daily Mail að Dorrit á að hafa hótað að lögsækja Tiggy fyrir nokkrum árum þegar iðnaðarmenn unnu við breytingar á íbúð þeirra síðarnefndu með þeim afleiðingum að mikið ryk læddist upp á efri hæðina.

Dorrit vonast til þess að áfrýjun hennar verði tekin fyrir hjá breskum dómstólum í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×